Færsluflokkur: Bloggar

Hey, förum í útilegu!

Það að gista í tjaldi er frábær upplifun þegar manni líður vel, að sofa í náttúrinni og anda að sér fersku súrefni fær mann til að vakna endurnærður á líkama og sál. Að sama skapi getur upplifunin orðið neikvæð ef manni er kalt eða nær ekki að festa svefn af einhverjum ástæðum.  Hér koma nokkur ráð til þess að fá sem mest út úr tjaldsvefninun.

Íslenskar sumarnætur eru ekkert alltaf hlýjar og því getur skipt máli að klæða sig rétt fyrir svefninn ef svefnpokinn er ekki þeim mun hlýrri.  Sumarpokinn minn miðar að því að geta sofið í 4° hita en samt liðið vel. Ég er nú óttaleg kuldaskræfa svo ég klæði mig nánast alltaf í ullarnærföt þegar ég gisti í tjaldi og þá líður mér frábærlega vel. Mesta hitatapið er út um hnakkann svo að skella húfu á kollinn er alveg möst ef manni er kalt. Mér finnst frábært að nota svona húfukollu því að er hægt að bretta faldinn niður og skýla augunum ef það er of bjart inni í tjaldinu.Flestir þekkja að geta ekki sofnað ef þeim er kalt á fótunum og því er gott að fara í ullarsokka, ég nudda líka oftast tásurnar áður en ég fer í þá og lykilatriði er að vera 100% þurr á fótunum.

Þeir sem eiga Nalgene flösku eða eitthvað sambærilegt sem þolir hita geta soðið sér vatn og notað flöskuna til þess að hita pokann upp. Þetta er eitt það notalegasta þegar gist er í tjaldi í mjög köldum aðstæðum.

Fyrir þá sem eiga erfitt að festa svefn og þurfa að hafa algjört hljóð í kringum sig er nauðsynlegt að nota eyrnartappa. Mér finnst það alveg frábært ef það er vindur og læti í tjaldinu.

Ég mæli líka með því að fara heitur ofan í pokann því líkaminn á erfitt með að hita sig upp þegar hann liggur í kyrrstöðu. Það er annaðhvort hægt að fara í stutta göngu fyrir svefninn eða gera magaæfingar í pokanum. Það fær blóðið á hreyfingu og hitar kroppinn.IMG_7002-e1471012523119


Útilíf fyrir alla fjölskylduna

IMG_8392Náttúran er okkar stærsti leikvöllur með óþrjótandi tækifærum og möguleikum á góðri hreyfingu utandyra. Útileikir eru bæði hvetjandi og skemmtile afþreying fyrir alla fjölskylduna allt árið um kring og börn og leikir eiga svo vel saman. Í leikjum eru þau frjáls, öðlast hvatningu og gleði og byggja upp sjálfstraust sitt. Að kanna umhverfið fyrir leik er eitt það fyrsta sem börn gera, þar á eftir búa þau til leiki sem henta umhverfinu og finna svo góð úrræði til þess að leika og þróa leikinn. Í þessu ferli koma upp vandamál sem börnin þurfa að leysa jafnóðum. Þá reynir á samskiptafærni þeirra og félagsþroska. Fullorðnir eiga því að hvetja til leiks eins oft og færi gefst.

Náttúrufjársjóður
Umhverfi okkar er fullt af gersemum sem safna má saman í einn fjársjóð
eftir smekk og áhugasviði hvers og eins. Góður undirbúningur er mikilvægur
og getur haft mikið um það að segja hversu mikinn áhuga börnin hafa á
leitinni. Þátttakendur geta valið sér þemu til þess að leita eftir og jafnvel
sett sér markmið um að finna til dæmis tíu hluti sem tilheyra sama flokki.
Litlir kassar eða taupokar eru hentugir til þess að safna gersemunum saman.
Sem dæmi um þemu má nefna steina, laufblöð, skeljar, sjó, fjöru, árstíðir og
svona mætti lengi telja.
Fjársjóðsleit er skemmtileg fyrir leikskóla, skóla, ættarmót, útiafmæli og
ævintýri fyrir fjölskylduna.


Fjársjóðskista
Safnið saman hlutum úr náttúrunni; fjörunni, fjallinu, skóginum og frá svæðum
sem eru ykkur kær og geymið í kistu heima fyrir. Síðar er hægt að skoða í
kistuna og rifja upp hvaðan hlutirnir eru, jafnvel föndra með þá og rifja upp
góðar minningar.

 

Kaflinn er úr Útilífsbók Fjölskyldunnar eftir undirritaða og Pálínu Ósk Hraundal.


Dagbók frá Himalaja: 6. Lífið í grunnbúðum Everest

Lífið í grunnbúðumÉg gekk inn í grunnbúðir þann 18. apríl nákvæmlega þremur árum eftir að íshrunið átti sér stað í Khumbuísfallinu. Ég verð alltaf pínu meyr þennan dag og því mjög hugsi þegar ég gekk inn í búðirnar okkar.

Aðstæður okkar í grunnbúðum eru ágætar, tjaldið mitt er stórt og rúmgott svo ég get raðað dótinu mínu og haft góða yfirsýn yfir allt. En kannski eins og gefur að skilja eru aðstæður almennt frumstæðar. Hér eru salernistjöld sem eru nokkurskonar kamrar og sturtutjald en sturtan er fata með heitu vatni og kanna sem maður sturtar vatninu yfir sig með, einfalt gott og getur ekki bilað. Allur þvottur er þvegin í höndunum og eldað á gasi.

Leiðangurinn minn er ekki formlegur „commercial“ leiðangur heldur klifra ég með Tenjee Sherpa og Dendi Sherpa sér um að græja alla díla fyrir okkur, hann er einskonar viðskiptastjóri ferðarinnar. Planið er því undir okkur komið og vissulega fylgir þessu minni þjónstua heldur en hjá þeim fyrirtækjum sem selja formlega leiðangra. Ég ber til dæmis allt mitt dót sjálf en fæ aðstöðu í tjaldbúðum hjá leiðangri sem er að fara á Lothse. Til þess að minnka allt álag þá deilum við Tenjee tjaldi og búnaði á fjallinu og ég verð að segja að ég kann mjög vel við þetta fyrirkomulag.

Tenjee er frábær, hann er bæði klifur sherpa og lama þannig að ég hef lært ýmislegt af honum í búddískum fræðum. Hann kyrjar kvölds og morgna í tjaldinu og ég kann vel að meta þær hefðir sem fylgja trúarbrögðunum. Tenjee sá líka um Puja athöfnina sem haldin var í grunnbúðum áður en lagt var á stað á fjallið. Þetta er þriggja klukkustunda athöfn þar sem beðið er um góðar vættir á fjallinu og farið er í gegnum ákveðið ferli. Í athöfninni eru bænaflöggin reist sem prýða grunnbúðir hvar sem maður fer. Það getur verið gott að skrifa bænir sínar og óskir á flöggin þannig að þau blakti út í vindinn en það þykir boða góða lukku. Eftir athöfnina eru Sherparnir og klifrararnir tilbúnir til þess að halda á fjallið.

Ég er nokkuð heppin með það að eiga þó nokkuð af félögum sem eru að reyna við fjallið í ár. Það styttir manni stundir að geta skroppið í te og skiptst á sögum. Svona leiðangur gengur nefnilega að miklu leyti út á þolinmæði, að bíða eftir réttum aðstæðum, að bíða eftir því að verða tilbúinn að takast á við hæðina, eða toppadaginn. Þetta er endalaus bið og þá er gott að vera sjálfum sér nógur eða geta stytt sér stundir í félagi við aðra. Það tekur líka á taugarnar að bíða, það er mikið undir - tími, peningar og vinna - en fyrst og fremst óvissan um það hvort að maður komist alla leið eða ekki. Þetta er nefnilega ekki búið fyrr en maður er kominn aftur til baka, það getur allt gerst í millitíðinni og það er nákvæmlega enginn öruggur með það að geta toppað.


Dagbók frá Himalaja: 5. Blessun frá Lama Geishe

Lama GeisheEitt af því mikilvægasta sem ég geri er að fara í heimsókn til Lama Geishe og fá blessun. Ég virði trúarathafnir heimamanna og tek þátt ef ég á þess kost. Þetta er mér mjög mikilvægt og ég held fast í allar hefðir. Lama Geishe kemur frá Tíbet og eftir því sem ég skil best talar hann ekki Nepölsku. Það er mikil virðing borin fyrir honum. Hann er eldri maður og situr ávallt á sama stað í herberginu þar sem athöfnin fer fram. Þar á hann greinilega sitt horn og er með allt sem hann þarf í kringum sig svo hann þurfi ekki að fara langt. Á veggjunum eru myndir af Everestförum sem hafa hlotið blessun og toppað farsællega. 

Við athöfnina fær maður hálsmen með bænabók svipað og ég fékk í Namche hjá Dechen og ber ég því nú tvö um hálsin. Á bakpokanum mínum er ég með Katha slæðu sem hann blessaði í fyrstu ferðinni minni um Khumbudalinn og í hverri ferð síðan þá. Mér þykir vænt um sjalið og það fylgir mér hvert sem ég fer. Lama Geishe gefur góð heilræði sem eru jafnan þýdd af heimamanni yfir á ensku og á meðan á athöfninni stendur er boðið upp á svart te.

Eftir athöfnina göngum við rösklega til Dingboche þar sem ég ákveð að koma við í bakaríinu og fá mér Strawberry Chocolate tartar eins og alltaf, jæja nema það var ekki til í þetta skiptið svo fyrir valinu varð Lemon tartar og masala te. Það er nokkuð magnað að það skuli vera svona fín bakarí á leiðnni þar sem aðstæður eru frumstæðar en ég get fullvissað ykkur um að bitinn er sjaldnast betri en einmitt þegar búið er að vinna sér inn fyrir honum. Við Dendi höfum lagt áherslu á að borða hollt á leiðinni og láta sem minnst af slikkeríi ofan í okkur og var þetta því eina undantekningin á leiðinni upp í grunnbúðir en þangað komum við tveimur dögum seinna eftir að hafa gist í Loboche.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband