Dagbók frá Himalaja 2: Lífrænt ræktað grænmeti í Phading

Hoppað á hengibrúnniVið göngum rösklega til Phading þar sem við ætum að fá okkur hádegismat á Namaste Lodge en þar hef ég oft verið áður og kynnst þar konu sem vinnur á tehúsinu. Hún heitir Chhiring Phuti Sherpa og er 31 árs gömul. Foreldrar hennar eiga tehúsið og hún hefur því alist upp í rekstrinum. Hún segir mér að þetta sé elsta gistiheimilið á svæðinu og fjölskylda hennar hafi rekið það í 31 ár.

Chhiring talar áberandi góða ensku og aðspurð segir hún það vera vegna hins mikla ferðamannastraums en ekki síst vegna þess að hún hafi haft tækifæri til þess að ferðast og vinna fyrir sér meðal annars á fjallahóteli á Ítalíu og eins hafi hún verið í Ástralíu. Hún þakkar ferðamönnum sem hafa komið á svæðið fyrir þessi tækifæri en þannig hafi hún fengið atvinnutilboðin. 

Chhiring er greinilega mjög stolt af því sem fjölskylda hennar hefur byggt upp. Þau rækta sitt eigið grænmeti, kartöflur og fleira, sem þau bjóða gestum sínum uppá og tjáir mér það að þetta sé allt lífrænt. Það er gott ræktarland í Phading og Lukla en erfiðara eftir því sem ofar dregur í dalnum. Fjölskyldan á einnig fjórar kýr sem eru nýttar vel í landbúnaðinum en einn góðan veðurdag ætlar hún að fá sér litlar vélar fyrir landbúnaðinn en sem stendur er erfitt að koma þeim á staðinn. Hún bindur miklar vonir við að það komi vegur upp til Chaurikharka á næstu 5-6 árum og það eigi eftir að auðvelda þeim lífið á ýmsan hátt ásamt því að það fjölgi ef til vill ferðamönnum á svæðinu.

ChhiringEiginmaður hennar starfar einnig stundum á tehúsinu en þau eiga sjö ára dóttur sem er að mestu leyti í Kathmandu í skóla en þar eiga þau heimili þegar þau eru ekki við störf í Phading. Ferðamannastraumurinn er árstíðabundinn svo þau skipta búsetu sinni niður eftir sveiflunum en fjölskyldan á einnig hús í Namche Bazar þar sem þau dvelja jafnan.

Við Dendi fáum okkur Sherpa stew í hádegismatinn með grænmeti ræktuðu af Chhiring og fjölskyldu. Þetta er súpa sem er ansi keimlík okkar íslensku kjötsúpu á bragðið eini munurinn er að það er ekki alltaf kjöt í Sherpa súpunni. Þetta er uppáhalds hádegismaturinn minn, góð orka og hollur matur en ekki síst er það mikilvægt fyrir kroppinn að innbyrða mikinn vökva þegar ferðast er upp í hæð. Það minnkar líkur á hæðarveiki og auðveldar líkamanum að aðlagast. Við vesturlandarbúar drekkum allt að 4-5 lítrum á dag.

Við Dendi kveðjum vinkonu okkar sem vefur um hálsinn á okkur Katha slæðum sem eru vináttuvottur og ósk um gott gengi. Þetta er mikilvægur siður hjá Sherpum og þeim sem eru Búddha trúar. Södd og sæl höldum við áfram nokkuð rösklega til þess að ná til Namche fyrir kvöldið. Við erum ekki lengi að ná að hinni víðfrægu Namce brekku sem er löng og nokkuð á fótinn. Brekkan telur um 3 km og 600 m hækkun. Þar sem við erum búin að fara dalinn upp og niður tvisvar sinnum þennan mánuðinn leyfum við okkur að ganga eins rösklega og kroppurinn leyfir án þess að finna til óþæginda. Við erum nokkuð fljót upp brekkuna og rétt náum inn til Namche í ljósaskiptunum og göngum síðustu skrefin í myrkri. Klukkan er á slaginu kvöldmatur og garnirnar farnar að góla eftir rösklega 22 km langan dag og nokkrar brekkur. 

Dendi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband