Hey, förum í útilegu!

Það að gista í tjaldi er frábær upplifun þegar manni líður vel, að sofa í náttúrinni og anda að sér fersku súrefni fær mann til að vakna endurnærður á líkama og sál. Að sama skapi getur upplifunin orðið neikvæð ef manni er kalt eða nær ekki að festa svefn af einhverjum ástæðum.  Hér koma nokkur ráð til þess að fá sem mest út úr tjaldsvefninun.

Íslenskar sumarnætur eru ekkert alltaf hlýjar og því getur skipt máli að klæða sig rétt fyrir svefninn ef svefnpokinn er ekki þeim mun hlýrri.  Sumarpokinn minn miðar að því að geta sofið í 4° hita en samt liðið vel. Ég er nú óttaleg kuldaskræfa svo ég klæði mig nánast alltaf í ullarnærföt þegar ég gisti í tjaldi og þá líður mér frábærlega vel. Mesta hitatapið er út um hnakkann svo að skella húfu á kollinn er alveg möst ef manni er kalt. Mér finnst frábært að nota svona húfukollu því að er hægt að bretta faldinn niður og skýla augunum ef það er of bjart inni í tjaldinu.Flestir þekkja að geta ekki sofnað ef þeim er kalt á fótunum og því er gott að fara í ullarsokka, ég nudda líka oftast tásurnar áður en ég fer í þá og lykilatriði er að vera 100% þurr á fótunum.

Þeir sem eiga Nalgene flösku eða eitthvað sambærilegt sem þolir hita geta soðið sér vatn og notað flöskuna til þess að hita pokann upp. Þetta er eitt það notalegasta þegar gist er í tjaldi í mjög köldum aðstæðum.

Fyrir þá sem eiga erfitt að festa svefn og þurfa að hafa algjört hljóð í kringum sig er nauðsynlegt að nota eyrnartappa. Mér finnst það alveg frábært ef það er vindur og læti í tjaldinu.

Ég mæli líka með því að fara heitur ofan í pokann því líkaminn á erfitt með að hita sig upp þegar hann liggur í kyrrstöðu. Það er annaðhvort hægt að fara í stutta göngu fyrir svefninn eða gera magaæfingar í pokanum. Það fær blóðið á hreyfingu og hitar kroppinn.IMG_7002-e1471012523119


Útilíf fyrir alla fjölskylduna

IMG_8392Náttúran er okkar stærsti leikvöllur með óþrjótandi tækifærum og möguleikum á góðri hreyfingu utandyra. Útileikir eru bæði hvetjandi og skemmtile afþreying fyrir alla fjölskylduna allt árið um kring og börn og leikir eiga svo vel saman. Í leikjum eru þau frjáls, öðlast hvatningu og gleði og byggja upp sjálfstraust sitt. Að kanna umhverfið fyrir leik er eitt það fyrsta sem börn gera, þar á eftir búa þau til leiki sem henta umhverfinu og finna svo góð úrræði til þess að leika og þróa leikinn. Í þessu ferli koma upp vandamál sem börnin þurfa að leysa jafnóðum. Þá reynir á samskiptafærni þeirra og félagsþroska. Fullorðnir eiga því að hvetja til leiks eins oft og færi gefst.

Náttúrufjársjóður
Umhverfi okkar er fullt af gersemum sem safna má saman í einn fjársjóð
eftir smekk og áhugasviði hvers og eins. Góður undirbúningur er mikilvægur
og getur haft mikið um það að segja hversu mikinn áhuga börnin hafa á
leitinni. Þátttakendur geta valið sér þemu til þess að leita eftir og jafnvel
sett sér markmið um að finna til dæmis tíu hluti sem tilheyra sama flokki.
Litlir kassar eða taupokar eru hentugir til þess að safna gersemunum saman.
Sem dæmi um þemu má nefna steina, laufblöð, skeljar, sjó, fjöru, árstíðir og
svona mætti lengi telja.
Fjársjóðsleit er skemmtileg fyrir leikskóla, skóla, ættarmót, útiafmæli og
ævintýri fyrir fjölskylduna.


Fjársjóðskista
Safnið saman hlutum úr náttúrunni; fjörunni, fjallinu, skóginum og frá svæðum
sem eru ykkur kær og geymið í kistu heima fyrir. Síðar er hægt að skoða í
kistuna og rifja upp hvaðan hlutirnir eru, jafnvel föndra með þá og rifja upp
góðar minningar.

 

Kaflinn er úr Útilífsbók Fjölskyldunnar eftir undirritaða og Pálínu Ósk Hraundal.


Dagbók frá Himalaja: 6. Lífið í grunnbúðum Everest

Lífið í grunnbúðumÉg gekk inn í grunnbúðir þann 18. apríl nákvæmlega þremur árum eftir að íshrunið átti sér stað í Khumbuísfallinu. Ég verð alltaf pínu meyr þennan dag og því mjög hugsi þegar ég gekk inn í búðirnar okkar.

Aðstæður okkar í grunnbúðum eru ágætar, tjaldið mitt er stórt og rúmgott svo ég get raðað dótinu mínu og haft góða yfirsýn yfir allt. En kannski eins og gefur að skilja eru aðstæður almennt frumstæðar. Hér eru salernistjöld sem eru nokkurskonar kamrar og sturtutjald en sturtan er fata með heitu vatni og kanna sem maður sturtar vatninu yfir sig með, einfalt gott og getur ekki bilað. Allur þvottur er þvegin í höndunum og eldað á gasi.

Leiðangurinn minn er ekki formlegur „commercial“ leiðangur heldur klifra ég með Tenjee Sherpa og Dendi Sherpa sér um að græja alla díla fyrir okkur, hann er einskonar viðskiptastjóri ferðarinnar. Planið er því undir okkur komið og vissulega fylgir þessu minni þjónstua heldur en hjá þeim fyrirtækjum sem selja formlega leiðangra. Ég ber til dæmis allt mitt dót sjálf en fæ aðstöðu í tjaldbúðum hjá leiðangri sem er að fara á Lothse. Til þess að minnka allt álag þá deilum við Tenjee tjaldi og búnaði á fjallinu og ég verð að segja að ég kann mjög vel við þetta fyrirkomulag.

Tenjee er frábær, hann er bæði klifur sherpa og lama þannig að ég hef lært ýmislegt af honum í búddískum fræðum. Hann kyrjar kvölds og morgna í tjaldinu og ég kann vel að meta þær hefðir sem fylgja trúarbrögðunum. Tenjee sá líka um Puja athöfnina sem haldin var í grunnbúðum áður en lagt var á stað á fjallið. Þetta er þriggja klukkustunda athöfn þar sem beðið er um góðar vættir á fjallinu og farið er í gegnum ákveðið ferli. Í athöfninni eru bænaflöggin reist sem prýða grunnbúðir hvar sem maður fer. Það getur verið gott að skrifa bænir sínar og óskir á flöggin þannig að þau blakti út í vindinn en það þykir boða góða lukku. Eftir athöfnina eru Sherparnir og klifrararnir tilbúnir til þess að halda á fjallið.

Ég er nokkuð heppin með það að eiga þó nokkuð af félögum sem eru að reyna við fjallið í ár. Það styttir manni stundir að geta skroppið í te og skiptst á sögum. Svona leiðangur gengur nefnilega að miklu leyti út á þolinmæði, að bíða eftir réttum aðstæðum, að bíða eftir því að verða tilbúinn að takast á við hæðina, eða toppadaginn. Þetta er endalaus bið og þá er gott að vera sjálfum sér nógur eða geta stytt sér stundir í félagi við aðra. Það tekur líka á taugarnar að bíða, það er mikið undir - tími, peningar og vinna - en fyrst og fremst óvissan um það hvort að maður komist alla leið eða ekki. Þetta er nefnilega ekki búið fyrr en maður er kominn aftur til baka, það getur allt gerst í millitíðinni og það er nákvæmlega enginn öruggur með það að geta toppað.


Dagbók frá Himalaja: 5. Blessun frá Lama Geishe

Lama GeisheEitt af því mikilvægasta sem ég geri er að fara í heimsókn til Lama Geishe og fá blessun. Ég virði trúarathafnir heimamanna og tek þátt ef ég á þess kost. Þetta er mér mjög mikilvægt og ég held fast í allar hefðir. Lama Geishe kemur frá Tíbet og eftir því sem ég skil best talar hann ekki Nepölsku. Það er mikil virðing borin fyrir honum. Hann er eldri maður og situr ávallt á sama stað í herberginu þar sem athöfnin fer fram. Þar á hann greinilega sitt horn og er með allt sem hann þarf í kringum sig svo hann þurfi ekki að fara langt. Á veggjunum eru myndir af Everestförum sem hafa hlotið blessun og toppað farsællega. 

Við athöfnina fær maður hálsmen með bænabók svipað og ég fékk í Namche hjá Dechen og ber ég því nú tvö um hálsin. Á bakpokanum mínum er ég með Katha slæðu sem hann blessaði í fyrstu ferðinni minni um Khumbudalinn og í hverri ferð síðan þá. Mér þykir vænt um sjalið og það fylgir mér hvert sem ég fer. Lama Geishe gefur góð heilræði sem eru jafnan þýdd af heimamanni yfir á ensku og á meðan á athöfninni stendur er boðið upp á svart te.

Eftir athöfnina göngum við rösklega til Dingboche þar sem ég ákveð að koma við í bakaríinu og fá mér Strawberry Chocolate tartar eins og alltaf, jæja nema það var ekki til í þetta skiptið svo fyrir valinu varð Lemon tartar og masala te. Það er nokkuð magnað að það skuli vera svona fín bakarí á leiðnni þar sem aðstæður eru frumstæðar en ég get fullvissað ykkur um að bitinn er sjaldnast betri en einmitt þegar búið er að vinna sér inn fyrir honum. Við Dendi höfum lagt áherslu á að borða hollt á leiðinni og láta sem minnst af slikkeríi ofan í okkur og var þetta því eina undantekningin á leiðinni upp í grunnbúðir en þangað komum við tveimur dögum seinna eftir að hafa gist í Loboche.


Dagbók frá Himalaja: 4. Framlög til göngustígagerðar

Við göngum áfram frá Namche og leiðin liggur til Deboche. Stígurinn sem við göngum á er vel gerður, breiður og rúmar vel þá sem eru á ferðinni en það hefur ekki alltaf verið svoleiðis. Árum saman hefur einn maður lagt á sig mikla vinnu við að byggja upp stígakerfið án aðstoðar frá opinberum yfirvöldum. Þetta byrjaði allt fyrir um 50 árum þegar hann byrjaði á að bæta stígana í kringum þorpið sitt fyrir heimamenn. Þeir voru oft grýttir og erfiðir yfirferðar en eftir því sem ferðamannastraumirinn jókst fór hann að færa út kvíarnar og síðustu ár hefur hann alfarið sinnt þessu verkefni upp á sitt einsdæmi.

Hann heitir Pasang Sherpa og er greinilega mikill hugsjónarmaður sem vinnur fyrir samfélagið. Hann býr í nálægu þorpi, Khumjung, ásamt konunni sinni sem stendur alla jafna vaktina með honum. Glöggir menn kannast ef til vill við Pasang úr Everest myndinni en þar bregður honum fyrir í einu atriðinu. Hann er orðinn 81 árs, gleraugun eru áberandi á andlitinu og það vantar í hann tennur. Hann er svona einn af þessum persónuleikum sem maður heillast strax af. Vinnuaðstaðan hans er lítið borð og „donation box“  en við það er bók þar sem göngumenn skrifa nafnið sitt í. Um leið og hann sér þig kallar hann; Hello – namaste! og konan hans er alla jafna við hliðina á honum með eitthvað á prjónunum.


Ferðamenn eru beðnir um framlög til stígagerðarinnar og án undantekningar láta þeir eitthvað smávegis af hendi rakna og skrá um leið nafnið sitt í bókina góðu. Oft á tíðum má svo sjá verkamenn að störfum í nálgægð við hjónin sem færa aðstöðuna sína eftir því hvar unnið er hverju sinni. Hér er allt unnið með höndunum, hakar, skóflur og járnkarlar eru meðal þess sem sjá má á stígnum þegar unnið er.

Það er ljóst að Khumbudalurinn væri mun fátækari án Pasang Sherpa og konunnar hans og við ferðamennirnir mun verr staddir á ekki jafn góðum stígum og raun ber vitni.

Við Dendi kveðjum þau hjónin og höldum áfram en brekkan upp Thengbochehill bíður okkar, hún er álíka löng og há og brekkan upp til Namche. Þar sem við erum bara tvö að þá skellum við músik í eyrun og höldum af stað upp brekkuna því þetta gengur sig víst ekki sjálft. Við höfðum lagt seint af stað frá Namche þar sem við þurftum að útrétta og komum því í ljósaskiptunum inn í Tengboche en þar er eitt helsta munkaklaustur svæðisins. Það var upplýst og ákaflega fallegt í þessari birtu, eftir að hafa dáðst að því í smá stund göngum við áleiðis niður brekkuna hinumegin og erum komin í náttstað um 15 mín seinna. Þetta kvöld fengum við eina þá bestu máltíð sem ég hef fengið í Khumbudalnum enda veitti ekkert af orkunni eftir göngutúr dagsins.


Dagbók frá Himalaja: 3. Namche Bazar

Namche BazarNamche Bazar er höfuðstaður Sherpanna eins og nafnið Bazar bendir til er þetta markaðs- og kaupstaður. Hingað koma heimamenn með körfur fullar af varningi og eiga viðskipti. Markaðurinn er haldinn á föstudögum og laugardögum. Þarna má finna allt frá ræktuðu grænmeti, osta, smjör, krydd og aðra matvöru yfir í fatnað, skóbúnað og ýmislegt nytsamlegt. Þar sem það eru engir vegir er þetta allt borið á bakinu og oft á tíðum í fléttuðum körfum. Allir virðast eiga sína körfu sama á hvaða aldri viðkomandi er og gjarnan má sjá litla krakka bera litlar körfur með einhverju smávægilegu í enda virðist það mikið sport að gera eins og fullorðna fólkið.

Í Namche er líka mikið af verslunum fyrir ferðamenn og óhætt er að segja að þarna fáist næstum því allt, allavega allt sem maður gæti þurft á að halda í gönguferð upp í grunnbúðir. Þarna eru líka verslanir sem selja handverk, bæði skartgripi, ýmislegt prjónelsi og leðurvarning.

Á einu horninu á aðal verslunargötunni er verslunin Tibetian Handcraft sem vinkona mín Dechen Doma rekur ásamt manninum sínum Ngawang Chultim. Hana hef ég heimsótt í öll skiptin sem ég hef komið til Namche en vinskapur tókst á með okkur árið 2014 þegar ég kom þangað í fyrsta skipti. Þá var ég áleiðinni á Everest og gaf hún með sérstakt blessunarhálsmen sem ég bar allan tímann á meðan ég var í Nepal. Flestir Nepöslku munirnir sem er að finna á heimilinu mínu koma úr búðinni hennar.

Dechen og maðurinn hennar reka verslun í Namche BazarDechen er hlýr persónuleiki með stórt og bjart karma sem skín í gegnum vinnuna hennar.  Hún framleiðir að mestu leiti sjálf það sem er til sölu í búðinni hennar og Ngawang hjálpar til en einhverjir munanna koma frá Kathmandu. Dechen er fætt í Tibet en kom yfir landamærin 18 ára gömil með frænda sínum sem var munkur í von um að fá skólagöngu og menntun en eitthvað fór úrskeiðis í þeim efnum og ekkert varð úr þeim plönum. Dechen réði sig því í samskonar verlsun og hún rekur í dag í nálægu þorpi þar sem hún lærði ýmislegt um viðskipti og rekstur samhliða vinnunni safnaði hún fjármagni og þegar hún var komin með nóg hélt hún til Namche þar sem hún stofnaði sína eigin verlsun. Á meðan ferðamanna straumirnn er nægur gengur reksturinn vel. DechenÞau hjónin eiga þó ekki húsnæðið sem verslunin er í né sitt eigið íbúðahúsnæði því segjast þau muni íhuga flutining ef að rekstarforsendur muni breytast á einhvern hátt. Þeim hjónum hefur ekki orðið barna auðið en vilja gjarnan aðstoða barn til náms eða styðja á annan hátt sé þess kostur.

Dechen er ein af 10 systkynum og heldur sambandi við þau í gengum netið og síma en það eru meira en 15 ár síðan hún sá þau síðast þar sem hún hefur ekki fengið vegabréfsáritun til þess að fara yfir til Tibet en stjórnsýslan í Nepal getur verið ansi snúin. Hún hefur ítrekað reynt en án árangurs, ferlið er langt og því vonbrigði að fá neitun. 

Eins og áður sagði er Dechen ákaflega hlýr persónuleiki og annt um að öðrum vegni vel. Að skilnaði í þetta skiptið gefur hún mér sérstakt hálsmen sem systir hennar bjó til. Á meninu er lítil búddísk bænabók sem er saumuð inn í ákaflega fallegt efni. Hún leggur mér línurnar að hafa það ávallt um hálsinn nema þegar ég fer í sturtu. Hún gefur mér annað samskonar men fyrir Dendi vin minn. Við föðmumst að skilnaði og ætlum að hittast aftur að leiðangri loknum.Namche er aðal verslunarstaður Sherpanna

 


Dagbók frá Himalaja 2: Lífrænt ræktað grænmeti í Phading

Hoppað á hengibrúnniVið göngum rösklega til Phading þar sem við ætum að fá okkur hádegismat á Namaste Lodge en þar hef ég oft verið áður og kynnst þar konu sem vinnur á tehúsinu. Hún heitir Chhiring Phuti Sherpa og er 31 árs gömul. Foreldrar hennar eiga tehúsið og hún hefur því alist upp í rekstrinum. Hún segir mér að þetta sé elsta gistiheimilið á svæðinu og fjölskylda hennar hafi rekið það í 31 ár.

Chhiring talar áberandi góða ensku og aðspurð segir hún það vera vegna hins mikla ferðamannastraums en ekki síst vegna þess að hún hafi haft tækifæri til þess að ferðast og vinna fyrir sér meðal annars á fjallahóteli á Ítalíu og eins hafi hún verið í Ástralíu. Hún þakkar ferðamönnum sem hafa komið á svæðið fyrir þessi tækifæri en þannig hafi hún fengið atvinnutilboðin. 

Chhiring er greinilega mjög stolt af því sem fjölskylda hennar hefur byggt upp. Þau rækta sitt eigið grænmeti, kartöflur og fleira, sem þau bjóða gestum sínum uppá og tjáir mér það að þetta sé allt lífrænt. Það er gott ræktarland í Phading og Lukla en erfiðara eftir því sem ofar dregur í dalnum. Fjölskyldan á einnig fjórar kýr sem eru nýttar vel í landbúnaðinum en einn góðan veðurdag ætlar hún að fá sér litlar vélar fyrir landbúnaðinn en sem stendur er erfitt að koma þeim á staðinn. Hún bindur miklar vonir við að það komi vegur upp til Chaurikharka á næstu 5-6 árum og það eigi eftir að auðvelda þeim lífið á ýmsan hátt ásamt því að það fjölgi ef til vill ferðamönnum á svæðinu.

ChhiringEiginmaður hennar starfar einnig stundum á tehúsinu en þau eiga sjö ára dóttur sem er að mestu leyti í Kathmandu í skóla en þar eiga þau heimili þegar þau eru ekki við störf í Phading. Ferðamannastraumurinn er árstíðabundinn svo þau skipta búsetu sinni niður eftir sveiflunum en fjölskyldan á einnig hús í Namche Bazar þar sem þau dvelja jafnan.

Við Dendi fáum okkur Sherpa stew í hádegismatinn með grænmeti ræktuðu af Chhiring og fjölskyldu. Þetta er súpa sem er ansi keimlík okkar íslensku kjötsúpu á bragðið eini munurinn er að það er ekki alltaf kjöt í Sherpa súpunni. Þetta er uppáhalds hádegismaturinn minn, góð orka og hollur matur en ekki síst er það mikilvægt fyrir kroppinn að innbyrða mikinn vökva þegar ferðast er upp í hæð. Það minnkar líkur á hæðarveiki og auðveldar líkamanum að aðlagast. Við vesturlandarbúar drekkum allt að 4-5 lítrum á dag.

Við Dendi kveðjum vinkonu okkar sem vefur um hálsinn á okkur Katha slæðum sem eru vináttuvottur og ósk um gott gengi. Þetta er mikilvægur siður hjá Sherpum og þeim sem eru Búddha trúar. Södd og sæl höldum við áfram nokkuð rösklega til þess að ná til Namche fyrir kvöldið. Við erum ekki lengi að ná að hinni víðfrægu Namce brekku sem er löng og nokkuð á fótinn. Brekkan telur um 3 km og 600 m hækkun. Þar sem við erum búin að fara dalinn upp og niður tvisvar sinnum þennan mánuðinn leyfum við okkur að ganga eins rösklega og kroppurinn leyfir án þess að finna til óþæginda. Við erum nokkuð fljót upp brekkuna og rétt náum inn til Namche í ljósaskiptunum og göngum síðustu skrefin í myrkri. Klukkan er á slaginu kvöldmatur og garnirnar farnar að góla eftir rösklega 22 km langan dag og nokkrar brekkur. 

Dendi


Dagbók frá Himalaja: 1. Hinar mörgu víddir Nepal

Mig hefur dreymt um að klífa Everest í 15 ár og tvisvar hef ég þurft að snúa aftur frá Nepal með sorg í hjarta eftir náttúruhamfarir 2014 og 15. Það var reynsla sem breytti lífi mínu og eftir seinna skiptið var ég ekki viss um að mig langaði að klífa eitt af háu fjöllunum aftur. En þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég og mun alltaf vera fjallgöngukona svo að hér er ég aftur komin til Nepal að klífa og upplifa drauminn.

En það er fleira en fjöllin sem heillar mig hér í Nepal. Menningin og mannlífið, fólkið og vinirnir sem ég hef kynnst munu fylgja mér alla tíð og mig langar að deila því með ykkur í nokkrum pistlum her á næstu vikum. 

 

1. Hinar mörgu víddir Nepal 

Þegar maður stígur upp í flugvélina heima á Íslandi og heldur til Nepal er maður ekki bara að að fara í ferðalag sem verður lokið þrem vikum seinna eða svo og hið vanalega líf heldur áfram, heldur er maður að fara inn í heim og aðstæður sem munu hafa áhrif á mann fyrir lífsstíð. 

Við lendingu í höfuðborginni, Kathmandu er strax ljóst að hér er veröldin önnur. Okkar siðir, venjur og hefðir gilda ekki, hérna eru önnur lögmál. Í fyrstu hefur maður kannski lítinn skilning á því hvernig samfélagið fúnkerar en það eina sem skiptir máli er að vita að þetta virkar bara ágætlega. Ég hef núna eytt samtals 9 mánuðum á svæðinu og er loksins komin upp á lag með ýmsa þætti sem voru mér mér mjög framandi í fyrstu.

Lapkha Sherpa vinnur að byggingu fjölskylduhússinsNepal er fátækt land, stjórnarfarið er óstöðugt og sífellt nýjar reglur að líta dagsins ljós, sú nýjasta er að það er bannað að flauta í umferðinni sem er alla jafna gríðarlega hávær, þung og kaóísk. Stundum er erfitt að átta sig á því hvað er regla og hvað ekki. Eitt árið mátti t.d. ekki birta myndir frá styrktraraðilum af toppnum af Everest – hver ástæðan var er erfitt að gera sér grein fyrir.

Flestir sem koma til Nepal eru á leiðinni í einhversskonar upplifunar ferð. Það er algengt að ganga upp í grunnbuðir Everest eða að hinu formfagra fjalli Annapurna, Jógaferðir til Pokahara eru sífellt vinsælli, fjallahjólaferðir hafa rutt sér til rúms síðustu misseri og Nepal er vel þekkt fyrir góðar aðstæður fyrir River rafting og kayakferðir.

Við erum á leiðinni upp í Khumbudalinn sem er magnaður, seiðandi og stórkostlegur á allan hátt. Ég þekki engan sem hefur komið hingað og ekki orðið fyrir sterkum hughrifum.

Það er mögnuð upplifun að stíga inn í litla Dornier vélina sem tekur 14 manns og taka á loft frá höfuðborginni. Þrátt fyrir að vélin rúmi fáa og flugleiðin sé stutt er ávallt uppábúin flugfreyja sem býður upp á brjóstsykur og bómull í eyrun. Ég á ófáar ferðirnar að baki í þessum litilu vélum og í allskonar aðstæðum, roki, litlu skyggni og svo í frábæru veðri. Það er stundum talað um að flugvöllurinn í Lukla sé sá hættulegasti í heimi, vissulega er lendingarbrautin lítil og lent er upp í miðju fjalli en eftir að brautin var malbikuð og aðstæður teknar út af alþjóðlegum úttektaraðilum hafa aðstæður batnað til muna og lendingin Á heimili Phelu Sherpa sem býður upp á te.er ævintýrleg ekki bara vegna aðstæðna heldur þeirrar fjallaveraldar sem maður er komin inn í. Það er allajafna flogið frekar snemma svo kalt fjallaloftið tekur á móti manni. Á vellinum sem er ekki mjög stór er kaótískt skipulag en líkt og áður þarf ekki að hafa neinar áhyggjur því þetta virkar þrátt fyrir að okkar vestræni skilningur nái ekki utan um þetta í fyrstu.

Við flugvöllinn bíða heimamenn sem eru jafnframt Sherpar og bjóða fram þjónstu sína við að bera töskur á tehús eða jafnvel alla leið upp dalinn að Gorakshep sem er næsta þorp við grunnbúðir.  Hér eru engir vegir, engir bílar eða önnur vélknúin ökutæki. Farangur og vistir eru annað hvort borin á herðum Sherpanna eða á Jakuxum.  Þetta gera þeir bæði að atvinnu fyrir ferðamenn og svo fyrir sjálfa sig til þess að halda heimili.  Greiðslan fyrir burðinn fer eftir því hversu mörg kíló er um að ræða og velja því sumir að bera meira til að fá hærri laun fyrir hverja ferð. Kerfið byggist upp á „loadi“ og eitt load er 30 kg, eitt og hálft load er 45 kg og tvö load eru 60 kg. Ég er nú hrædd um að við myndum sligast undan þyngdinni og tala nú ekki um þegar hæðin og brekkurnar fara að láta til sín taka.

Lukla er fjallaþorp í 2800 m hæð og þar sem flugvöllurinn fyrir Khumbudalinn er staðsettur þar er ferðamennskan áberandi í þorpinu. Þarna eru tehús en gistiheimilin ganga jafnan undir því nafni, bakarí, hamborgarastaður, pöbbar og verslanir. Vissulega er þetta í annari mynd en við þekkjum en stemningin er dásamleg. Eigendur sitja gjarnan fyrir utan verslanirnar tilbúnir til þess að selja vörurnar sínar og víða má sjá börn að leik. Hænsni, hundar og búpeningur gengur um göturnar rétt eins og við sem göngum um á tveimur jafnfljótum.

Dendi Sherpa, Pasang og Mingma.Við göngum inn á Khumbu lodge tehúsið og ég er langt frá því að vera ein á ferð. Dendi Sherpa, vinur minn og viðskiptafélagi ásamt fjölskyldu eru með í för. Konan hans Mingma og  fimm ára sonur Pasang eru að fara í sveitina, ætla að vera í nokkra daga í þropinu Chaurikharka sem er í 30 mín göngufjarlægð frá Lukla. Þetta er þorpið hennar Mingma og þar ólst hún upp ásamt fjórum bræðrum sínum. Í dag búa þar eldri frænka hennar og einn bróðir ásamt fjölskyldu.

Við göngum niður í móti og eftir ekki svo langa stund að þá komum við að nýja húsinu sem fjölskyldan er að byggja en húsið þeirra hrundi í jarðskjálfranum árið 2015. Það er fjöldi manna við störf og flest verkin unnin í höndunum. Steinarnir eru hoggnir til og raðað sama eftir kúnstarinnar reglum. Hér er að vísu að finna rafmagnsverkfæri til að vinna timbur þar sem lítil vatnsafls rafmagnsveita er á svæðinum og því boðið upp á slíkan munað. Rafmagnið er þó afskaplega takmarkað og ekki notað á sama hátt og við þekkjum.

Við setjumst inn í lítið timburhús sem notað er til bráðabirgða á meðan það er verið að reisa nýja húsið. Það er pínu lítið, smá forstofa og svo c.a. 15 fermetrar sem eru eldhús, stofa og svefnaðstaða en þrátt fyrir lítinn íburð er tekið vel á móti okkur með mikilli reisn og hlýju. Við erum svo sannarlega velkomin og boðið er upp á te á meðan spjallað er um daginn og veginn. Þetta kann ég að meta, að hverfa út fyrir straum ferðamannanna og sitja í eldhúsi hjá heimamönnum.

Okkur Dendi er ekki til setunnar boðið þar sem við erum á leiðinni í Everest leiðangur og við þurfum að ná upp í Namche Bazar fyrir kvöldið. Það eru alla jafna tvær dagleiðir en þar sem við erum vel aðlöguð eftir að hafa verið á ferðinni um Khumbudalinn í heilan mánuð með hópa af Íslendingum getum við leyft okkur að fara hratt yfir.

Dendi kveðjur fjölskylduna sína og við örkum af stað.

 

 


Skemmtileg fjögurra vikna fjallgönguáætlun fyrir sumarið

17813703_10155121725557114_1089745402_nHér er ein lauflétt æfingaáætlun fyrir þá sem langar til þess að setja sér fjallgöngumarkmið í sumar. Þetta plan er heppilegt fyrir þá sem vilja t.d. ganga Fimmvörðuháls í sumar, fara Laugaveginn eða sambærilegar gönguleiðir. Útivist er frábær leið til þess að komast í gott form, skoða landið í leiðinni og skapa minningar sem maður lifir á í margar vikur.

Fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref að þá mæli ég sérstaklega með Fimmvörðuhálsi sem sumarmarkmiði. Leiðin er 22 km og hækkun upp á 1000 metra. Áætlaður göngutími er allt frá 9 og upp í 12 klst eftir hraða og færi.

Fimmvörðuháls er ein vinsælasta gönguleiðin á Íslandi og ekki að ástæðulausu. Virkilega falleg og fjölbreytt leið sem endar í paradísinni Þórsmörk. Mæli með því að þeir sem eru óvanir fari yfir með ferðafélagi eða reyndari göngumönnum.

Upplýsingar um leiðir má finna t.d. í bókinni Íslensk fjöll eða í nýja göngu appinu @wappið. Svo eru til frábærar vefsíður og öpp eins og Wikiloc og Gaia GPS sem eru stútfull af upplýsingum.

Hér er skemmtilegt fjögurra vikna æfingaplan. Það er mikilvægt að muna fyrir þá sem eru að byrja að þetta verður alltaf auðveldara í hvert skipti. Fyrir þá sem vilja taka lengri tíma í verkefnið að þá má auðveldlega hafa annað fjallið í vikunni fasta ferð á t.d. Helgafellið og hina ferðina samkvæmt planinu.

 

Vika 1

1. Mosfell í Mosfellssveit.
– Hæð: 280 m og gönguhringur um 4 km.

2. Úlfarsfell
– Hæð: 295 m og gönguhringur um 5 km.

Vika 2
1. Helgafell í Hafnarfirði.
– Hæð: 338 og mæli með því að menn prófi að ganga hringinn (ekki sömu leið fram og til baka) og þá telur leiðin 5,4 km.

2. Háihnúkur í Akrafjalli
– Hæð: 555 m og leiðin er um 4,6 km .

Vika 3
1. Esjan upp að steini
– Hæð: 586m og leiðin er um 6 km

2. Móskarðshnúkar
– Hæð: 807 m og 7 km. Nú er mál að skella bakpoka á bakið og æfa framvegis með hann ef þú hefur ekki gert það nú þegar.

3. Leggjabrjótur:
– Hækkun um 500 m og leiðin er um 17 km.

Vika 4
1. Helgafell í Hafnarfirði
– Hæð: 338 og mæli með því að menn prófi að ganga hringinn og þá telur leiðin 5,4 km.

2. Vífilsfell
– 655 m og leiðin er um 5 km.

3.Skeggi í Henglinum
– 805 m og leiðin er um 12 km.

Nú ættuð þið að vera komin í frábært form og vel í stakk búin til þess að takast á við Fimmvörðuhálsinn.


Klæddu þig rétt fyrir útivistina

Það er ekki eins flókið að ákveða í hverju maður á að vera eins og það virðist í fyrstu. Frost, vindur, rigning eða sól? Það er mikilvægt að geta brugðist við síbreytilegu veðrinu á Íslandi en jafnframt látið sér líða vel, ekki of heitt og ekki of kalt.  Flestir kjósa að klæða sig í lagskiptan fatnað svo það sé hægt að stýra hitanum en það hentar mun betur heldur en að klæða sig í eina hnausþykka flík eða eina örþunna.

Fötunum er skipt upp í þrjú lög og þeim púslað saman eftir veðri og vindum.


vilborg_cintamani_lowres-6Innsta lagið
er það sem er næst húðinni og sér um að hleypa rakanum frá húðinni.  Oft þegar maður er búinn að erfiða og orðinn sveittur verður manni hroll kalt þegar maður stoppar. Þess vegna skiptir öndunin svo miklu máli. Það er algjörlega bannað að vera í bómull en mælt er með ullar eða gerfiefna flíkum. Ullin hentar að sjálfsögðu betur þegar kalt er í veðri og hefur hún ósjaldan bjargað mannslífum. Gerfiefnin eru frábær þegar það er mjög heitt þar sem mörg þeirra hafa kælandi eiginleika. Þau safna að vísu frekar í sig lykt en þá er bara að smella örlitlu Roadaloni í þvottavélina og málið er leyst.

Mið lagið hefur einangrunargildi. Eftir því sem flíkin tekur meira loft í sig þeim mun meiri einangrun. Það hefur orðið mikil þróun síðustu ár og núna er það ekki bara flísið sem gildir heldur eru komnar allskonar útfærslur af þessum flíkum t.d. létt primaloft, blanda af flís og primaloft peysum og ýmislegt fleira. Það er ekkert sérstaklega mælt með því að vera í ullarpeysum ef það er rigning eða þörf á utanyfir jakka því þær eiga það til að þæfast hressilega undan núningnum. Softshell buxur hafa komið sterkt inn síðustu ár og eru stundum kallaðar 90% buxur þar sem hægt er að vera í þeim 90% af tímanum. Þær eru vindþéttar og hrinda vel frá sér vatni.

Ysta lagið er skjólið sem ver okkur fyrir rigningu og vindi og jafnan kallaðar skeljar. Þetta eru oft tæknilegar flíkur með öndunarfilmum sem hleypa rakanum út en eru samt vatnsheldar. Mikilvægt er að flíkin passi vel og sé alls ekki of þröng því vatnsheldnin minnkar á snertiflötum. Í dag er hægt að fá jakka og buxur með allskonar fídusum og tæknilegum útfærslum á vösum, rennilásum og ermum. Gott er að hugsa fyrir því að ermarnar nái vel niður og jakkinn sé ekki of stuttur í mittið svo hann haldist nú örugglega á sínum stað í öllu bröltinu.  Að velja flíkur í skemmtilegum litum er góð hugmynd því þá sést maður betur og bónusinn er að allar myndir verða svo miklu líflegri!

Fyrir þá sem hafa áhuga á að stunda gönguferðir í sumar að þá mæli ég alltaf með því að eiga góða skó. Það þarf svo sem ekkert að fara út í neinar stórfjárfestingar en góður sóli sem er bæði stöðugur og með gott grip hjálpar alltaf. Stuðningur við ökklann hjálpar og mikilvægt er að reima skóna bæði rétt og vel er mikilvægt svo þeir þjóni tilgangi sínum. Fyrir léttar fjallgöngur sem krefjast ekki þess að vera að bera þunga poka að þá eru léttir skór algjörlega málið. Stífir og þungir skór eru bæði óþæigilegir og meiri líkur eru á hælsærum og þess háttar.

Svo er bara málið að skella vatni á brúsa og reima skóna!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband